Flokkur: Heimsóknir

12.11.2012 16:57

Húsvitjun á Lundum

Húsvitjun 8.nóvember 2012 tekin af Önnu Berg og Eygló Huldu

Heimsókn að Lundum

Tamingarkonan 
Veturkonungur er farin að bíta, hálka og snjóföl yfir öllu. Við keyrum ofurvarlega frá seinustu húsvitjun að Sturlu-Reykjum. Er við rennum í hlað er Sibbi og Ragna að fara gefa útiganginum, þau kalla úr traktornum "farið bara inn í hesthús við komum rétt strax". Þangað er förinni heitið.
Í hesthúsinu á Lundum er ung falleg stúlka að leggja á snotran brúnan hest er hún kallar "Minn". Þetta er tamningarkona þeirra hjóna á Lundum, Lilja Ósk Alexandersdóttir dóttir þeirra hjóna Ólafar Guðmundsdóttir og Alexanders Hrafnkelssonar. Lilja segist vera spennt fyrir störfum vetrarins og nú þegar sé húsið orðið fullt, 20 hross. Henni finnst gott að vinna við hross á þessu svæði og segir "útreiðarleiðirnar hérna er mjög góðar og það er gott að þjálfa og temja hross hérna" . 

Lilja er búin að leggja við þann brúna og gerir sig klára til að fara á bak inni í höll. Við fylgjumst með, klárinn virkar sáttur, þjáll og mjúkur í höndum öruggs knapa. Það er aldrei að vita hvað gerist hjá þeim Lilju og Minn (Þokkasyni) í vetur enn nokkrir mánuðir í fyrsta mótið.  

Ragna og Sigbjörn
Hjón á Lundum renna í hlað á sínum eðaltraktor. Þau eru hress og kát, Sibbi er þó allur vafinn um höndina hann hafði víst verið að járna í gær og farið heldur óvarlega þannig að hann endaði á slysó. Tobbi járningarmaður var því væntanlegur innan tíðar. Okkur var ekki í kot vísað og fengum við bæði kaffi og nýbakaða snúða þetta kom talfærunum í gang. Og spurningarboman hefst:

Hvernig líst þér árið 2013 Sibbi? "Mér líst bara vel á það ég er spenntur fyrir íslandsmóti og finnst staðsetningin góð" sagði Sibbi.   

En hvað með fjórðungsmót næsta sumar? "það aftur á móti líst mér illa á, það verður allt of mikið að gera næsta sumar og svo er líka nýbúið að vera landsmót tvö ár í röð og svo er líka heimsmeistaramót næsta ár. Fólk verður að fá andrými á milli stórmóta. Svo já mér finnst þessu móti vera ofaukið". 

En er Sibbi spenntur fyrir hrossakosti vetrarins? "Já þessi vetur leggst vel í mig, mörg spennandi hross - en látum verkin tala því stundum kemur mest á óvart sem síst skyldi". 

En hvað er það Sibbi sem þér líst svona vel á? "Ja hvað er það, fyrst skal nefna hann Alexander þennan brúnblesótta, leistótt-leyni sokkótta undan Kvist og Auðnu þetta er mjög lofandi foli. Það verður gaman að fylgjast með fjögurravetra hryssunum t,d brún undan Hrannari og rauðblesóttri undan Bjarma. Svo er það fimmvetra Auðnusonur sem ég ætla að senda í háskóla til hans Kobba. Nú ekki má gleyma honum Glanna Glæp brúnblesóttum fola með leista á afturfæti stoltur foli undan Gými frá Hestabergi (f.Glampi frá Vatnsleysu). 

Það væri gaman ef Sibbi myndi koma fram með tvo glæsistóðhesta með þessum sérstaka lit, brúnblesótt leistótta. Er við kvöddumst héldum við þeim möguleika opnum að koma í vetur með góða cameru og taka nokkur skot af þeim á Lundum ríðandi á gæðingum sínum. 

Þangað til næst gangi ykkur allt í haginn. 

08.11.2012 20:09

Húsvitjun á Sturlu-Reykjum

Húsvitjun 8.nóvember 2012 tekin af Önnu Berg og Eygló Huldu

Heimsótt var Hrafnhildur á Sturlu-Reykjum

Í glaðasólskini og mildri vetrar golu tókum við hús á Sturlu-Reykjum. Í
hesthúsinu var húsfrúin að berja járn undir einn af klárum sínum. Hrafnhildur var nýbúin að taka inn eftir haust fríið er stóð í heilar tvær vikur "löngunin er komin aftur" sagði Hrafnhildur og hlær við. "Langt frí" segjum við í undrunartón því tvær vikur eru að okkar mati ekki langt frí. En þeir sem þekkja orku hennar Hrafnhildar vita að tvær vikur eru jú mjög langt frí.

Aðalspurningin er brennur á okkur Eygló er að vita hverjar séu vonarstjörnur vetrarins og hvaða væntingar hún hafi til ársins 2013. Hrafnhildur sagði að henni litist mjög vel á árið í heild sinni. Vonarstjörnurnar væri einna helst hryssan, undan Fræg frá Flekkudal og Skoppu frá Hjarðarholti, sem er á fjórða vetur. Í húsinu í vetur verður líka Bleikstjörnóttur Molasonur undan Væntingu skeiðhryssunni hans Konna. Og svo auðvitað hann Vörður rauðskjótti graðhesturinn okkar, undan Skoppu og Auð frá Lundum, en vonandi verður hægt að koma fram með hann í vetur. Ásamt þessum hrossum verða gömlu klárarnir settir á járn þeir Mósart, Smellur og Fengur. Ásamt því að hafa reiðhesta og tamningartryppi á járnum yfir veturinn eru þau ávalt með góð söluhross og þá einkum keppnishross. 

Þökkum við Hrafnhildi kærleg fyrir höfðinglegar móttökur og óskum við þeim alls hins besta á komandi vetri. Sjáumst heil. 

Ath. næsta húsvitjun birtist í eftir helgi og það verður enginn annar en stórbóndinn Sibbi á Lundum og hans fólk. 

  • 1
Flettingar í dag: 30
Gestir í dag: 15
Flettingar í gær: 30
Gestir í gær: 10
Samtals flettingar: 218604
Samtals gestir: 58221
Tölur uppfærðar: 23.10.2018 13:32:25