Lög félagsins

Lög fyrir hestamannafélagið Faxa.

Samþykkt á Aðalfundi í Brún 30. apríl 2002

 

1. gr.

Félagið heitir Hestamannafélagið Faxi. Það nær fyrir Mýra- og Borgarfjarðarsýslu norðan Skarðsheiðar. Heimili þess og varnarþing er á heimili formanns hverju sinni.

Félagið er aðili að UMSB, LH og ÍSÍ, og því háð lögum reglum og samþykktum íþróttahreyfingarinnar.

2. gr.

Markmið félagsins er að gæta hagsmuna hestamennskunnar á félagssvæðinu, stuðla að bættri meðferð hrossa, efla hestaíþróttir og kynbætur reiðhrossa og styrkja félagslegt samstarf hestamanna.

Þessum markmiðum vill félagið ná:

1.                  Með aukinni fræðslu um alla þætti hestamennskunnar, ekki síst rétta meðferð hrossa og lands.

2.                  Með því að efna til keppni og sýninga félagsmanna og stuðla þannig að öflugu hestaíþróttastarfi.

3.                  Með félagslegum samverustundum og reiðtúrum.

4.                  Með reglulegum námskeiðum og öflugu unglingastarfi.

5.                  Með því að efla reiðvegagerð og standa vörð um rétt til að nýta þekktar reiðleiðir í samráði við landeigendur.

6.                  Með því að vera málsvari hestamennskunnar út á við.

7.                  Með því að tryggja að félagsmenn hafi aðgang að keppnisvöllum og íþróttamannvirkjum sem svari til krafna á hverjum tíma.

3. gr

Félagsmenn geta allir orðið sem þess óska og ekki eru aðrar takmarkanir á þátttöku í félagsstarfi en þær sem ytri  aðstæður kynnu að hamla. Inntökubeiðni skal vera skrifleg og öðlast umsækjandi full félagsréttindi þegar stjórn félagsins hefur samþykkt hana og umsækjandi greitt fyrsta árgjald félagsins. Inntökubeiðni skal bera upp á næsta aðalfundi til staðfestingar.

 

Hver félagið skal greiða árgjald eins og það er ákveðið á aðalfundi hverju sinni. Þeir félagar sem verða 16 ára á almanaksárinu og yngri, verði undanþegnir greiðslu . Heiðursfélagar eru undanþegnir greiðslu árgjalds. Félagar sem verða 16 ára á almanaksárinu og yngri, hafa hvorki kosningarétt né kjörgengi.

4. gr.

Árgjald félagsmanna skal ákveðið fyrir næsta starfsár á hverjum aðalfundi. Eindagi er 1. janúar ár hvert. Ef árgjald er ógreitt á eindaga missir viðkomandi félagsmaður öll félagsréttindi þangað til árgjald greitt.  Þeir félagar sem ekki hafa innt af hendi greiðslur árgjalda 1. apríl teljast ekki lengur félagsmenn og skal það tilkynnt á næsta aðalfundi. Viðkomandi getur ekki öðlast félagsréttindi á ný nema eldri skuld sé greidd. Óski félagsmaður eftir að ganga úr félaginu skal það gert skriflega til stjórnar félags.

5. gr.

Hafi einhver maður að dómi félagsstjórnar unnið félaginu sérstaklega vel eða gert félaginu svo mikið gagn að ástæða þyki til að sýna fyrir það sérstakan heiður og viðurkenningu,  þá er stjórn félagsins heimilt að gera viðkomandi að heiðursfélaga FAXA. Heiðursfélögum skal afhent skrautritað skjal, undirritað af stjórn félagsins. Heiðursfélagar njóta sömu réttinda og aðalfélagar.

6. gr.

Stjórn félagsins skipa 5 menn, formaður, ritari, gjaldkeri, varaformaður og meðstjórnandi. Er formaður kjörinn til eins árs í senn, en aðrir stjórnarmenn til tveggja ára. Ritari og varaformaður eitt árið en gjaldkeri og meðstjórnandi annað árið. Í varastjórn skal árlega kjósa 3. menn og taka þeir sæti í aðalstjórn í samræmi við atkvæðahlutfall. Þá skal á hverjum aðalfundi kjósa tvo skoðunarmenn reikninga og tvo til vara. Aðalfund skal halda eigi síðar en í nóvembermánuði ár hvert og er hann lögmætur ef hann er boðað með dagskrá bréflega, símleiðis á hvert heimili félagsmanna eða í útvarpi með þriggja vikna fyrirvara.

Dagskrá aðalfundar skal vera:

 1. Setning fundar og kosning starfsmanna hans.
 2. Fundargerð síðasta aðalfundar.
 3. Skýrsla stjórnar.
 4. Lagðir fram endurskoðaðir reikningar félagsins til úrskurðar.
 5. Formenn nefnda flytja skýrslu um starf ársins.
 6. Árgjald næsta árs.
 7. Lagabreytingar.
 8. Kosningar
 9. Önnur mál, löglega fram borin.

7. gr.

Formaður er fulltrúi félagsins út á við. Hann er sjálfkjörinn á þing LH. Hann boðar til stjórnarfunda og aukafunda eftir þörfum. Hann skal boða til aukafundar, ef minnst 10% félagsmanna æskja þess skriflega og einnig ef minnst 3 stjórnarmeðlimir æskja þess. Í fundarboði skal tilkynna um fundarefni. Formanni  er heimilt að tilnefna fundarstjóra. Fundi skal boða með viku fyrirvara og eru þeir þá löglegir. Ritari ritar gerðabók á stjórnarfundum og félagsfundum og skal hann geyma öll skjöl félagsins og gerðabækur.  Formaður skal hafa í vörslu sinni afrit af öllum bréfum til og frá félaginu og önnur þau gögn félagsins sem hann óskar. Féhirðir hefur fjárreiður félagsins með höndum og annast innheimtu. Hann hefur fé félagsins á vöxtum og annast greiðslur eftir ávísun formanns. Félagsstjórn  hefur for-göngu í allri starfsemi félagsins og þótt nefndum sé falin tiltekin verkefni, ber stjórninni jafnan yfirumsjón.

Stjórn er heimilt að ráða félaginu framkvæmdastjóra með samþykkt aðalfundar og fela honum hluta þeirra verkefna sem nefnd eru hér að ofan. Stjórnin skal framkvæma samþykktir aðalfundar og standa skil á skýrslum til þeirra félagasamtaka sem félagið er aðili að. Heimilt er félaginu að gerast aðili að samtökum sem starfa á vettvangi sem falla undir áhugasvið,  er félagið hefur á stefnuskrá sinni.

8. gr.

Reikningsár félagsins er frá 1. september til 31. ágúst.

9.gr.

Lögum félagsins  verður aðeins breytt á aðalfundi og því aðeins að 2/3 hlutar greiddra atkvæða samþykki breytinguna. Lagabreytingar sem félagsmenn óska að verði bornar upp á aðalfundi skulu sendar stjórn fyrir júlí næstan fyrir aðalfund.  Tillögur til lagabreytinga, hvort sem er frá stjórn eða einstökum félagsmönnum, skal tilkynna í aðalfundarboði.

 1. gr.

Stjórn félagsins ber að varðveita af fyllstu gaumgæfni öll skjöl og önnur gögn sem veita heimildir um störf félagsins og eignir þess, svo og nákvæma félagsskrá, reikninga og bréfaskriftir. Einnig skýrslur yfir öll mót sem félagið tekur þátt í og/eða efnir til. Halda ber skrá yfir öll verðlaunahross félagsins ásamt verðlaunum og/eða minajagripum. Einnig skal halda skrá yfir öll hross félagsmanna sem valin eru til sýninga og/eða keppni í nafni félagsins. Þar komi fram nöfn hrossanna, uppruni, eigendur, aldur og litur.

11. gr.

 

Ef um er að ræða að leysa félagið upp, verður það að gerast á aðalfundi eða félagsfundi þar sem mættur er minnst helmingur atkvæðisbærra félagsmanna og að 2/3 hlutar mættra félagsmanna greiði því atkvæði sitt. Náist ekki þessi fundarsókn verður að boða til fundar að nýju og verður þá félagið leyst upp á löglegan hátt 2/3 hlutar greiddra atkvæða eru með því, án tillits til fundarsóknar og atkvæðaþátttöku. Ekki er hægt að taka fyrir tillögu um að leggja félagið niður nema að tillagan hafi verið kynnt bréflega fyrir öllum félagsmönnum með minnst viku fyrirvara. Verði félagið þannig leyst upp, skulu eignir þess renna til UMSB. Ráðstöfunarréttur á eigum félagsins kemur ekki til framkvæmda fyrr en að minnst 3 árum liðnum frá upplausn félagsins. Það telst ekki upplausn þó félagið sameinist öðrum hliðstæðum samtökum í nálægum héruðum.

 1. gr.

Lög þessi öðlast gildi 30. apríl 2002.

 


Flettingar í dag: 47
Gestir í dag: 15
Flettingar í gær: 30
Gestir í gær: 10
Samtals flettingar: 218621
Samtals gestir: 58221
Tölur uppfærðar: 23.10.2018 14:59:10